Tilgangur samkeppninnar er að fá fram hugmyndir um nýtingu varmaorku sem finnst víða á Suðurlandi og býður upp á fleiri tækifæri en nýtt eru í dag. Markmiðið er að nýta betur verðmætin sem eru í orkunni, auka fjölbreytni í atvinnulífi með umhverfismál að leiðarljósi og vinna að nýsköpun í orkutengdri starfsemi.
Samkeppnin miðar að því að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um nýtingu jarðvarma og varmaorku á Suðurlandi. Ekki eru settar skorður um efni hugmynda að öðru leyti. Með jarðvarma og varmaorku er átt við bæði heitt vatn og gufu sem og önnur efni sem tengjast jarðvarma, s.s. uppleyst steinefni og ýmiss konar lofttegundir. Gert ráð fyrir að tillögur snúi bæði að lághita og háhita.
Um er að ræða almenna hugmyndasamkeppni sem er öllum opin. Hugmyndir verða áfram eign þeirra sem skila inn tillögum. Ekki er gerð krafa um að hugmyndir verði framkvæmdar.
Verðlaun
Heildarupphæð verðlauna er 3.000.000 kr. og verða fyrstu verðlaun að lágmarki 1.500.000 kr.
Auk verðlaunafjár munu verðlaunahafar njóta aðstoðar frá sérfræðingum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Orku náttúrunnar við frekari þróun viðskiptahugmyndarinnar.
Keppnissvæðið
Vettvangur samkeppninnar er Suðurland, þ.e. Árnessýsla, Rangárvallarsýsla, Skaptafellssýslur og Vestmannaeyjar.
Afhending keppnisgagna
Keppnislýsing þessi er aðgengileg á heimasíðu SASS (www.sass.is). Ekki er um önnur keppnisgögn að ræða.
Keppnistillögur
Tillögum skal skila á rafrænu formi. Ekki er gerð krafa um ákveðið form eða kaflaskiptingu efnis en rétt er að vekja athygli á þeim viðmiðum sem dómnefnd hefur sett sér.
Þátttakendur eru hvattir til að setja tillögur skýrt fram og gera grein fyrir tillögunni á skýran og greinargóðan hátt. Lýsa þarf í texta megininntaki tillögunnar, helstu forsendum, markmiðum og væntum ávinningi. Auk þess er gert ráð fyrir viðeigandi teikningum, myndum, útreikningum, áætlunum o.þ.h. sem máli skipta.
Gert er ráð fyrir að tillögur verði kynntar við verðlaunaafhendingu. Ef um er að ræða trúnaðarupplýsingar er mikilvægt að þátttakendur geri grein fyrir slíku í tillögunum. Dómnefnd mun taka tillit til trúnaðarupplýsinga. Aðstandendur samkeppninnar eignast ekki innsendar tillögur og eiga höfundar þeirra áfram allan rétt til að nýta þær samkvæmt höfundalögum. Eftir að keppni lýkur mun SASS eiga forgang að nýtingu verðlaunaðra tillagna í eitt ár, en með því er átt við forkaupsrétt fyrir hönd aðila á Suðurlandi.
Viðmið dómnefndar
Dómnefnd leggur áherslu á eftirtalin atriði við mat á tillögum:
- Er um að ræða nýjung i nýtingu varmaorku?
- Hvaða auðlindir nýtir tillagan til viðbótar varmaorkunni?
- Er tillagan hugsuð heildstætt (landnotkun, auðlindagreining, fráveitumál, atvinnusköpun, þróunarmöguleikar hugmyndarinnar o.s.frv.)?
- Gerir tillagan ráð fyrir þverfaglegri starfsemi?
- Býður tillagan upp á fjölbreyttari atvinnustarfsemi?
- Er stuðlað að bættu umhverfi?
- Er samfélagslegur ávinningur af tillögunni og afurðum hennar?
- Er tillagan raunhæf?
- Er líklegt að tillagan leiði til arðbærra lausna?
Dómnefnd og verkefnisstjóri
Dómnefndina skipa:
- Albert Albertsson, stjórnarformaður Íslenska jarðvarmaklasans
- Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjamarkaða Orku náttúrunnar
- Gunnar Þorgeirsson, stjórnarformaður SASS
- Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands
- Sigurður Þór Sigurðsson, formaður Atorku
Verkefnisstjóri:
- Haraldur Hjaltason, ráðgjafi hjá Artemis ehf.
Fyrirspurnir
Gefinn er kostur á fyrirspurnum frá keppendum og skal þeim beint til verkefnisstjóra á netfangið haraldur@artemis.is. Fyrirspurnir ásamt svörum dómnefndar verða birtar á vef SASS (www.sass.is).
Skilafrestur og skil á tillögum
Tillögum skal skila með tölvupósti á netfangið samkeppni@sass.is eigi síðar en þriðjudaginn 17. apríl n.k. Tillögur sem berast síðar teljast ekki gildar.
Dagsetningar keppninnar
Samkeppni hefst: 9. mars 2018
Skilafrestur tillagna: 17. apríl 2018
Verðlaunaafhending: 24. maí 2018.
Úrslit og kynning
Verðlaunaafhending verður 24. maí og þá verður einnig kynning á tillögum. Verðlaunaafhending verður auglýst nánar á vefsvæði keppninnar (www.sass.is).