fbpx

Íbúafundur var haldinn mánudaginn 23. september í Grænumörk á Selfossi þar sem íbúar Árborgar tóku þátt í að forgangsraða atriðum úr SVÓT-greiningu, sem byggir á könnun sem íbúar sveitarfélagsins svöruðu í vor. Fundargestir voru einnig fengnir til að móta framtíðarsýn með skapandi hætti, hvort sem það var í formi skrifa, teikninga eða jafnvel vísugerðar. Að lokinni hópavinnu skiluðu þátttakendur inn tillögum að markmiðum og áherslum fyrir atvinnustefnuna, sem Árborg vinnur nú að í samstarfi við Flóahrepp og Hveragerði.

Verkefnisstjórn atvinnustefnunnar er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju sveitarfélagi, en Ingunn Jónsdóttir, byggðaþróunarfulltrúi neðri hluta Árnessýslu og framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, ásamt Helgu Kristínu Sæbjörnsdóttur starfsmaður HfSu eru starfsmenn verkefnisstjórnar. Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri þróunarsviðs SASS og Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir verkefnisstjóri hjá SASS, veita ráðgjöf í þessari stefnumótunarvinnu.

Á næstu vikum verða haldnir íbúafundir fyrir Flóahrepp og Hveragerði, þar sem íbúar þeirra sveitarfélaga fá tækifæri til að leggja sitt af mörkum í stefnumótunarvinnunni. Verða þeir auglýstir þegar nær dregur. 

SASS hefur áður gefið út handbók til leiðbeiningar við gerð atvinnustefnu sveitarfélaga, og byggir stefnumótunarvinnan að einhverju leyti á henni. Handbókina má finna hér: Handbók um gerð atvinnustefnu.

Á síðasta ári lauk vinnu við gerð atvinnustefnu í Uppsveitum Árnessýslu, þar sem sveitarfélögin fjögur; Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur komu sér saman um sameiginlega atvinnustefnu. Nánar má lesa um þá vinnu og sjá útgefna stefnu hér

Hér að neðan má sjá myndir frá íbúafundinum í Árborg.