fbpx

Samband íslenskra sveitarfélaga boðar á heimasíðu sinni, til málþings og námskeiðs undir yfirskriftinni Jafnrétti í sveitarfélögum, í samstarfi við Jafnréttisstofu og jafnréttisráð. Hvoru tveggja fer fram á Grand hóteli í Reykjavík, málþingið fimmtudaginn 31. mars og námskeiðið föstudaginn 1. apríl.

Viðburðirnir eru skipulagðir með vísun til stefnumörkunar Sambands íslenskra sveitarfélaga kjörtímabilið 2014-2018 þar sem segir að sambandið skuli hvetja og styðja sveitarfélögin í því að ná fram jafnrétti kynjanna í reynd.

Sérfræðingar frá sænska sveitarfélagasambandinu, SALAR,  munu vera með kynningu á málþinginu 31. mars og vera leiðbeinendur á námskeiðinu 1. apríl. SALAR hefur um nokkra ára skeið, með fjárstuðningi frá sænska ríkinu, stutt sænsk sveitarfélög í að gera jafnréttismál sjálfbær innan sveitarfélaga. Áherslan hefur verið á að kynjasjónarmið séu samþætt inn í starfsemi sveitarfélaga og aðferðir kynjasamþættingar nýttar til að veita íbúum betri og skilvirkari þjónustu. Á málþinginu verða einnig íslenskar kynningar og umræður um stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Dagskrá málþingsins er hér að neðan. Það hefst kl. 13:30 og lýkur kl. 17:00.

Á námskeiðinu verður farið dýpra ofan í hagnýta aðferðarfræði við beita kynjasamþættingu í starfsemi sveitarfélaga og á einstökum sviðum, svo sem í skipulagsmálum, félagsþjónustu, menningar- og tómstundamálum og skólamálum. Námskeiðið mun fara fram á ensku. Það hefst kl. 09:00 og lýkur kl. 16:00. Dagskrá og upplýsingar um sænsku sérfræðingana eru hér að neðan.

Bæði málþingið og námskeiðið verða haldin á Grand hóteli og hægt er að skrá sig á báða viðburðina eða hvorn fyrir sig.

Það er sænska reynslan, og reyndar alls staðar viðurkennd staðreynd, að lykillinn að árangri í jafnréttismálum er skilningur og áhugi yfirstjórnenda. Þess vegna er aðal markhópur málþingsins yfir- og millistjórnendur í sveitarfélögum, fulltrúar í sveitarstjórnum og jafnréttisnefndum og auðvitað líka starfsfólk sem fer með jafnréttis- og umbótamál.

Málþingið og námskeiðið eru haldin í samstarfi við Jafnréttisstofu og jafnréttisráð með fjárstuðningi ráðsins. Í tengslum við þessa viðburði verður gefið út fræðsluhefti fyrir stjórnendur um jafnrétti í sveitarfélögum sem allir þátttakendur fá í hendur.

Málþingsgjald kr. 2.500 og námskeiðsgjald kr. 5.000