fbpx

Nordregio Forum 2023:  Ungir Norðurlandabúar lykillinn að velmegandi og grænum Norðurlöndum  - mynd

Mynd: Nordregio

Vefráðstefna á vegum Nordregio, rannsóknarstofnunar um byggðaþróun og skipulagsmál, um framtíð Norðurlanda verður haldin miðvikudaginn 17. október næstkomandi milli kl. 8:30 – 19:00. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar er ungt fólk á Norðurlöndum og hvernig við tökum sjónarmið þeirra inn í stefnumótun og áætlanagerð. Ráðstefnan fer fram á ensku.

Norðurlandabúar á milli tvítugs og þrítugs eru að velja hvað og hvar þau vilja vinna, læra og setjast að. Til að vinna að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims er mikilvægt að skilja hvað stýrir starfsvali ungs fólks, búsetu og hreyfanleika og skoðunum þeirra á sjálfbærni, en allir þessir þættir hafa áhrif á framtíðarþróun norrænna byggða.

Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um mikilvægi þátttöku ungs fólks í stefnumótun og framtíðarskipulagningu byggða. Leitast verður við að svara hvað umræddar kynslóðir þurfa til að búa áfram á Norðurlöndunum og hvernig við komum í veg fyrir brottflutning ungs fólks úr dreifbýli.

Nordregio Forum er árleg ráðstefna fagfólks og stefnumótandi aðila sem vinna að byggða-, dreifbýlis- og borgarþróun á Norðurlöndunum. Vettvangurinn er kjörinn til að skiptast á hugmyndum og stefnum og miðla nýrri þekkingu, dæmum og reynslu. Einnig eru tækifæri til að ýta undir stefnuskrár lands- og byggðastefnu á sama tíma og læra hvert af öðru.

 

Frétt fengin á vef Stjórnarráðsins