Tökum öll þátt við að móta stefnur landshlutans til ársins 2024
Nú er fyrsta tímabili Sóknaráætlunar Suðurlands að ljúka, 2015 til 2019. Verkefnið um sóknaráætlun hefur þróast mikið á tímabilinu, bæði hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) sem og hjá ríki. Það má segja að tilraunaverkefninu um sóknaráætlanir landshluta sé hér með að ljúka og við taki nýtt tímabil þar sem við mörkum okkur stefnu til framtíðar og byggjum á reynslu fyrra tímabils.
Sóknaráætlun Suðurlands 2015-2019 hefur skilað 68 fjármögnuðum verkefnum eða aðgerðum fyrir um 240 mkr. sem snerta byggðamál og byggðaþróun í landshlutanum. Jafnframt hefur verið úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands, fyrir um 70 til 90 mkr. árlega. Auk þessa hefur stefnumörkun Sóknaráætlunar Suðurlands haft áhrif á störf SASS á sviði byggðaþróunar, s.s. í gegnum áherslur Uppbyggingarsjóðs Suðurlands, í atvinnuþróun og ráðgjöf á vegum SASS og með einstökum verkefnum.
Með lagasetningu um sóknaráætlanir frá árinu 2015 og Byggðaáætlun 2018 til 2024, hafa jafnframt verið stigin skref í þróun stefnumörkunar sem fylgt er nú eftir með fjármögnuðum aðgerðum. Meðan Byggðaáætlun tekur til landsins alls eru sóknaráætlanir landshluta einskorðaðar við sérstöðu hvers landshluta fyrir sig, með sértækum verkefnum og á ákveðnum málefnasviðum.
Sóknaráætlun Suðurlands 2020 til 2024 mun amk. innihalda eftirfarandi stefnur:
- Menningarstefna Suðurlands
- Atvinnu- og nýsköpunarstefna Suðurlands
- Umhverfis- og auðlindastefna Suðurlands
Ef þessi málefnasvið höfða til þín þá viljum við taka vel á móti þér á íbúafundi um ofangreind málefni. Svo stefnur okkar verði raunhæfar og tali okkar máli, þurfa íbúar að koma að mótun þeirra. Þegar hafa verið haldnir sjö íbúafundir umhverfis- og auðlindamál á Suðurlandi, á síðasta ári, með þátttöku um 200 íbúa. Íbúafundir um atvinnumál, nýsköpun og menningarmál verða nú haldnir í þessum mánuði.
Það er markmið okkar að þátttaka verði góð svo áhrif og áherslur íbúa komist til skila inn í nýja Sóknaráætlun Suðurlands 2020 til 2024. Með von um góða þátttöku og gott samstarf.
Sjá meðfylgjandi kynningarrit um Sóknaráætlun Suðurlands og framkvæmd við stefnumótunarferli um mótun Sóknaráætlunar Suðurlands 2020 til 2024.
Sóknaráætlun Suðurlands 2020 til 2024 ferlið A.pdf
Sjá nánari upplýsingar um mótun nýrrar Sóknaráætlunar Suðurlands hér á heimasíðu verkefnisins.