fbpx

Drög að Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024, á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), er nú kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Mótun nýrrar sóknaráætlunar var unnin í nánu samráði við aðila í landshlutanum. Íbúafundir voru haldnir um sérhvert málefni og tóku um 400 íbúar þátt í fundunum. Afurð fundanna voru megináherslur íbúa sem lagðar voru til nánari úrvinnslu á fundi samráðsvettvangs. Samráðsvettvangurinn var skipaður 100 einstaklingum, sveitarstjórnarfólki og íbúum skipuðum af sveitarfélögunum fimmtán á Suðurlandi. Á þeim fundi var markmiðum forgangsraðað og þau tengd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í ferlinu var ákveðið að skipta sóknaráætluninni í þrjá málaflokka: atvinna og nýsköpun, umhverfi og samfélag. Eru það jafnframt þrjú megin málefni sjálfbærrar þróunar. Tekin verður grunnstaða í öllum mælanlegum markmiðum 1. janúar 2020 og reglulega fylgst með stöðunni út tímabilið.

Afurðin er drög að Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024, sem er landshlutabundin byggðaáætlun Sunnlendinga. Stefnan mun stýra ákvörðun um val á áhersluverkefnum (aðgerðum) og við úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands á vegum samtakanna.

Drög að Sóknaráætlun Suðurlands 2020 til 2024 er nú kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og verður opið fyrir athugasemdir og ábendingar á vefnum, samradsgatt.is, til og með 8. október næst komandi. Eru íbúar, sem og aðrir hagaðilar, hvattir til að kynna sér nýja sóknaráætlun landshlutans á samráðsgáttinni. Hægt er að kynna sér drögin á samráðsgáttinni hér

Sóknaráætlun í samráðsgáttinni má finna hér