fbpx

Á fundi stjórnar SASS  sem haldinn var 20. mars sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt um orkumál með einu mótatkvæði, sjá nánar í fundargerð 402. fundar:
,,Samtök sunnlenskra sveitarfélaga vekja athygli á breyttum aðstæðum sem hafa skapast í orkumálum á  Íslandi vegna niðurstöðu nýafstaðinnar kosningar í Hafnarfirði  sem hefur stöðvað  frekari stækkunaráform Alcan í Straumsvík og þar með fyrirhugaða aukna orkusölu Landsvirkjunar  til fyrirtækisins.Í ljósi þessa telja samtökin eðlilegt að raforka frá virkjunum  sem kunna að verða reistar á Suðurlandi verði nýtt til orkufreks iðnaðar á Suðurlandi, en nú þegar eru uppi áform um slíka atvinnustarfsemi.    Til þess liggja margvísleg rök.  Langstærstur hluti þeirrar raforku sem framleidd hefur verið á Íslandi  hefur komið frá virkjunum á Suðurlandi en  orkan  hefur hingað til   verið nýtt til atvinnuuppbyggingar í öðrum landshlutum.  Því  er eðlilegt og rétt að  grípa tækifærið sem nú gefst til að nýta orkuna í héraði.  Þá benda samtökin á að með því að nýta orkuna sem næst virkjunum  verða flutningslínur styttri og ódýrari.  Styttri flutningslínur leiða einnig til minna orkutaps og  minni sjónmengunar sem hvort tveggja er æskilegt vegna umhverfissjónarmiða.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga  leggja því  mikla áherslu á  að sú orka sem kann að verða virkjuð á Suðurlandi á næstu árum verði nýtt  í héraði.”