fbpx

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun og Skipulagsstofnun óska eftir þátttöku nokkurra sveitarfélaga við að móta aðferðafræði fyrir sveitarfélög til þess að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. 

Gert er ráð fyrir því að 4-5 sveitarfélög verði valin til að vinna náið með sérfræðingum fyrrnefndra stofnana að því að þróa og prufukeyra aðferðafræðina. Verði eftirspurnin umfram það, mun framkvæmdarteymi verkefnisins velja til þátttöku með það fyrir augum að verkefnið spanni sem fjölbreyttastan hóp sveitarfélaga m.t.t. stærðar, lykilatvinnugreina og veðurfars(loftslags)tengdra áskorana. Þeim sveitarfélögum sem sækjast eftir þátttöku en verða ekki fyrir valinu verður boðið að taka þátt í bakhópi verkefnisins sem ætlaður er til skoðanaskipta, upplýsingamiðlunar og stuðnings. 

Vinnan felur m.a. í sér greiningar á áhættu og aðlögunarhæfni sveitarfélaganna sem um ræðir, hvar aðlögunar er þörf og hvernig henni er best háttað. 

Vinnunni er ætlað að skila tveimur meginafurðum:

  • Aðgerðapakka vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum fyrir sveitarfélögin sem taka þátt. 
  • Leiðbeiningarit sem gagnast mun öðrum sveitarfélögum í aðlögunarvinnu í framtíðinni. 

Gert er ráð fyrir að verkefnið hljóti fjármögnun frá stjórnvöldum svo framlag sveitarfélaga verður einungis á formi vinnuframlags. 

Frekari upplýsingar um verkefnið og hvað sveitarfélög græða á þátttöku eru hér.

Áhugasömum er bent á að setja sig í samband við Ragnhildi Friðriksdóttur hjá Byggðastofnun (ragnhildur@byggdastofnun.is) eigi síðar en 18. nóvember nk.