fbpx

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar landshlutasamtakanna undirrituðu nýverið nýja sóknaráætlunarsamninga við hátíðlega athöfn í ráðherrabústaðnum. Eva Björk Harðardóttir formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) undirritaði samninginn fyrir hönd samtakanna. Grunnframlag ríkisins til samninganna árið 2020 nemur 716 milljónum króna en með viðaukum og framlagi sveitarfélaga nema framlög alls 929 milljónum króna. Heildargrunnframlag ríkis og sveitarfélaga til Suðurlands árið 2020 verða rúmlega 118 mkr.

Samningarnir byggja á lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir og gilda til fimm ára, 2020-2024. Markmið laganna er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga, jafnframt að færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Forsögu sóknaráætlana má rekja til ársins 2011 þegar byrjað var að þróa hugmyndafræðina innan Stjórnarráðsins en fyrstu samningar um sóknaráætlanir landshluta voru gerðir árið 2013. Sóknaráætlanir landshluta eru þróunaráætlanir sem fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Markmiðið er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á áherslum heimamanna. 

Eva Harðardóttir formaður stjórnar SASS, Siguður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við undirritun samningsins.

 

Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga samþykkir Sóknaráætlun Suðurlands 2020 – 2024

Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024 tekur gildi um næstu áramót. Svæði Sóknaráætlunarinnar nær yfir sveitarfélagið Höfn í austri, að Hellisheiði í vestri og til Vestmannaeyja í suðri. Á svæðinu búa um 30 þúsund manns í 15 sveitarfélögum. Áætlunin var samþykkt á ársþingi SASS sem haldið var 24.-25. október s.l. Samtökin sjá um að framfylgja áætluninni með fyrrgreindu fjármagni frá mennta- og menningaráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og sveitarfélögum á Suðurlandi. Nýja sóknaráætlunin tekur við af þeirri fyrstu sem gerð var fyrir landshlutann og var ákveðin frumraun og skilaði samtals 69 verkefnum á Suðurlandi. Í nýju áætluninni má sjá nýjar áherslur, þar má nefna umhverfi og samfélag en auk þeirra er áfram unnið með atvinnu- og nýsköpun. Áætlunin byggir m.a. á áherslum heimamanna sem fram komu á einum stórum samráðsvettvangi og íbúafundum sem haldnir voru um allt Suðurland s.l. vor.

Megináherslur nýrrar sóknaráætlunar Suðurlands 2020-2024

Ný Sóknaráætlun tengist markmiðum ríksstjórnarinnar og heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna. Áherslur og mælanleg markmið sóknaráætlunar Suðurlands verða innleidd í gegnum aðgerðir og verkefni Uppbyggingarsjóðs Suðurlands annars vegar og hins vegar í gegnum þau áhersluverkefni sem ráðist verður í árlega á Suðurlandi. Framundan er mikil vinna við að móta verkefni sem vinna skal á næstu árum. Á heimasíðu SASS er hægt að skoða betur nýja Sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024, þar er einnig hægt að senda inn verkefnatillögu um áhersluverkefni sem tengist nýrri sóknaráætlun. Hér má líka sjá áhersluverkefnin sem unnin hafa verið á Suðurlandi frá árinu 2015.

Guðlaug Ósk Svansdóttir
Verkefnastjóri