Starfamessa á Suðurlandi 2015 var haldin í Fjölbrautaskóla Suðurlands 19. mars 2015 kl. 10-16 í samstarfi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Atorku – félags atvinnurekenda á Suðurlandi, Vinnumálastofnunar á Suðurlandi og grunn- og framhaldsskóla á svæðinu.
Á Starfamessu á Suðurlandi 2015 voru 28 kynningarstöðvar þar sem yfir 30 sunnlensk fyrirtæki kynntu starfsemi sína og störfin sem unnin eru innan fyrirtækjanna. Áherslan að þessu sinni var á iðn- og tæknimenntun, ferðaþjónustu og garðyrkju. Lögð var áhersla á að kynningar væru líflegar til að vekja áhuga nemenda, en milli 15 og 16 hundruð nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla og framhaldsskóla mættu á Starfamessuna, auk kennara, ungra atvinnuleitenda á vegum Vinnumálastofnunar á Suðurlandi, sveitarstjórnarmanna og annarra gesta. Þar mátti sjá úrbeiningu og vinnslu á kjöti, pylsugerð, hársnyrtingu, ljósmyndun, andlitsförðun, beislissmíði, mismunandi rafmagnskapla, alls kyns smíðisgripi blikksmiðs, dúklagningu, bílvél, tækjabúnað málara, gerð á einangrun fyrir plaströr, o.fl., o.fl.
Kveikjan að Starfamessunni var könnun sem gerð var á þörf fyrir verk- og tækninám á Suðurlandi í samvinnu Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Fræðslunetsins – símenntunar á Suðurlandi. Við vinnslu skýrslunnar komu fram hugmyndir um að staðið yrði sameiginlega að kynningu á störfum og fyrirtækjum á Suðurlandi. Í skýrslunni kemur fram að ungmenni á Suðurlandi vita lítið um þau störf sem unnin eru á vinnumarkaði. Það varð því eitt af fyrstu verkefnum samráðshóps menntunar og atvinnulífs að blása til Starfamessunnar.
Starfamessan tókst vel og iðaði Fjölbrautaskóla Suðurlands af mannlífi og starfsgleði allan tímann.