Markmið
Þróun aðgerðar- og vöktunaráætlunar sem er áætlað að klárist árið 2020.
Verkefnislýsing
Sem næsta skref í stefnumótunarferlinu eru teknar saman helstu aðferðir nútímalegrar úrgagnsstjórnunar og útbúa handbók um úrgangsstjórnun sem gæti nýst öllum sveitarfélögum á Suðurlandi. Hvert sveitarfélag er einstakt og með mismunandi þarfir í úrgangsstjórnun og því þarf handbókin að bjóða upp á sveigjanlegar lausnir sem hentar mismunandi þörfum. Einnig er lagt til að undirbúa farveginn hjá sveitarfélögum á Suðurlandi að innleiðingu á snjallkerfi úrgangs með því að greina tæknina útfrá vandamálum og kostnað við innleiðingu.
Handbókin myndi því innihalda markmið, aðgerðir, vísa og vöktunaraðferðir sem hvert sveitarfélag getur innleitt í sínu samfélagi. Að sama skapi mun handbókin innihalda upplýsingar um innihald samninga við þjónustuaðila með það að markmiði að samræma upplýsingagjöf frá þeim þannig að auðveldara verður að vakta málaflokkinn í heild sinni. Að lokum mun hún innihalda kostnaðaráætlun og leiðbeiningar um hvernig megi snjallvæða úrgangsmál í einstaka sveitarfélagi á Suðurlandi.
Þessi vinna er mikilvægt skref til að tryggja að úrgangsmál á Suðurlandi fari í góðan farveg, að dregið sé úr losun vegna málaflokksins og að hann sé rekin á sem hagkvæmastan hátt, sem kemur íbúum á Suðurlandi til góða þar sem þeir standa straum að kostnaðinum við rekstur hans. Verkefnið er því liður í því að innleiða sjálfbærni í úrgangsmeðhöndlun á Suðurlandi og grundvallast stefnan á innleiðingu Hringrásahagkerfisins.
Hveragerðisbær hefur samþykkt að taka þátt í verkefninu.
Tengsl við sóknaráætlun 2020-24
Umhverfi – Draga úr losun CO2 um 10% fyrir árið 2024
Tengsl við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
#11 – Sjálfbærar borgir –
Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær.
Mælikvarði 11.6.1: Hlutfall fasts úrgangs frá þéttbýli sem er safnað saman með reglubundnum hætti og er fargað með viðunandi hætti sem hlutfall af heildarmagni fasts úrgangs í þéttbýli, eftir borgum.
Árangursmælikvarðar
Aðferðir prófaðar með rannsókn og úrgagnsmagn fyrir og eftir rannsókn verður metið sem árangursmælikvarði á viðkomandi aðferð.
Lokaafurð
Handbók um úrgangsstjórnun sveitarfélaga.
Verkefnastjóri
Elísabet Björney Lárusdóttir
Framkvæmdaraðili
SASS
Samstarfsaðilar
Hveragerðisbær
Heildarkostnaður
5.000.000 kr.
Þar af framlag úr Sóknaráætlun
5.000.000 kr.
Ár
2020
Upphaf og lok verkefnis
Verkefni hefst í febrúar 2020 og líkur í desember 2020.
Staða
Í vinnslu
Númer
203010
Staða verkefnis
Unnið er að vefnum Úrgangstorg sem heldur utan um úrgangsmál sveitarfélaga. Í gegnum vefinn geta sveitarfélög nálgast mánaðarlega greiningu á kostnaði og magni úrgangs og á sama tíma fengið samanburð við önnur sveitarfélög. Þessi vefur þjónar öllum sveitarfélögum og mun veita stöðumatsgreiningu sem er grunnur að góðri stefnumótunarvinnu.
Zero Waste Hveragerði hefur einnig verið sett á fót sem liður í að innleiða hringrásarhagkerfi á Suðurlandi. Hér er um tilraunaverkefni að ræða sem miðar að því að innleiða úrgangsstjórnunarkerfi í Hveragerði og að virkja íbúa á svæðinu til að þróa lausnir sem henta þeirra samfélagi við að draga úr úrgangsmyndun. Í verkefninu verða skoðaðir möguleikar á að koma hráefni sem myndast við söfnun úrgangs í betri nyt t.d. með því að nýta úrganginn sem hráefni í aðra framleiðslu og að horfa til möguleika á að draga úr myndun úrgangs með t.d. umbúðalausum verslunum eða grænum opinberum innkaupum o.s.frv. Þessi aðferð verður síðan metin í lok árs út frá upplifun þátttakenda.
Tekin hafa verið skref í áttina að snjallvæðingu úrgangs með því að skoða heildarkostnað við þróun, uppsetningu og innleiðingu snjallkerfis hjá Sorpstöð Rangárvallasýslu. Verður það kerfi tengt inn í Úrgangstorg með það að markmiði að öll sveitarfélög tengist því sem er liður í að leiða landshlutann í átt að hringrásarhagkerfinu, þar sem góð yfirsýn yfir úrgang er forsenda þess að draga megi úr myndun á honum.
Sérstök styrkveiting fékkst frá umhverfisráðuneytinu við gerð fýsileikakönnunar um rekstur úrgangstorgsins fyrir öll sveitarfélögin á landinu.