Svæðisskipulagsnefnd Suðurhálendis vinnur nú að gerð svæðisskipulags fyrir Suðurhálendið sem nær til hálendishluta eftirtalinna sveitarfélaga: Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur. Auk þeirra taka sveitarfélögin Flóahreppur og Árborg þátt í verkefninu.
Í samræmi við 23. gr. skipulagslaga og 13. og 14. gr. laga um umhverfismat áætlana og framkvæmda hefur svæðisskipulagsnefnd tekið ákvörðun um að kynna tillögu að svæðisskipulagi á vinnslustigi, ásamt umhverfismatsskýrslu. Tillögunni fylgir greinargerð um landslagsgreiningu fyrir Suðurhálendi, sem er fylgirit svæðisskipulagsins.
Viðfangsefni skipulagsvinnunnar er mótun framtíðarsýnar og stefnumörkun fyrir Suðurhálendið um sterka innviði, umhyggju fyrir auðlindum, ábyrga nýtingu auðlinda, aðgerðir fyrir loftslagið og góða samvinnu.
Greinargerð til kynningar ásamt umhverfisskýrslu má finna á vef SASS, https://www.sass.is/sudurhalendi/ undir „Vinnslutillaga“.
Þau sem vilja koma með ábendingar eða athugasemdir um vinnslutillöguna geta komið þeim til svæðisskipulagsnefndar á netfangið sudurhalendi@sass.is.
Frestur til athugasemda hefur verið framlengdur til 19. febrúar 2023.
Endanleg tillaga verður kynnt almenningi með formlegum hætti og auglýst í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
Svæðisskipulagsnefnd Suðurhálendis
Sjá auglýsingu hér.