Samkvæmt lögum eru tekjustofnar sveitarfélaga útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en auk þess innheimta sveitarfélögin ýmsar þjónustutekjur og tekjur af eigin stofnunum og fyrirtækjum. Á árinu 2013 voru skatttekjur 71%, framlag úr Jöfnunarsjóði 13% og aðrar tekjur 17% af heildartekjum sveitarsjóða á landinu öllu. Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga. Það er dregið af launum til skatts hjá hverjum launþega ásamt tekjuskatti ríkisins. Frádrátturinn er þrepaskiptur, frá 37,3% upp í 46,24%. Útsvarsprósentan getur verið mismunandi frá einu sveitarfélagi til annars. Samkvæmt tekjustofnalögum getur útsvarsprósentan hæst verið 14,52% en lægst 12,44%. Fjársýsla ríkisins sér um millifærslu á launþegasköttum til ríkis, sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs.