fbpx

Atvinnu- og umhverfisnefnd Flóahrepps hefur lagt það til við sveitastjórn að sveitarfélagið taki þátt í því átaki að fá fólk til þess að hætta að nota plastpoka undir sorp og til innkaupa og nota heldur fjölnota innkaupapoka eða mais poka. Þá leggur nefndin til að sveitastjórn sýni hug í verki og skoði kostnað við að kaupa af kvenfélögum Flóahrepps fjölnota innkaupa poka og gefa öllum heimilum Flóahrepps og styðja þannig í leiðinni það góða starf sem kvenfélögin inna af hendi. „Flóahreppur hefur löngum staðið framarlega í umhverfismálum og þátttaka í þessu verkefni myndi renna styrkari stoðum undir þá ímynd. Einnig leggjum við til að sveitarfélagið skori í framhaldinu á önnur sunnlensk sveitarfélög að fara sömu leið“, segir í bókun nefndarinnar. Sveitarstjórn hefur samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að kanna kostnaðinn sem liggur í því að taka þátt í þessu verkefni og hvort möguleiki er á samstarfi við kvenfélögin í sveitarfélaginu um það.