Tónlistarskóli Árnesinga hlaut Menntaverðlaun Suðurlands fyrir árið 2022 en Forseti Íslands afhenti verðlaunin. Um 550 nemendur eru í skólanum en kennslan fer fram á 14 stöðum í Árnessýslu. Átta sveitarfélög sýslunnar standa að skólanum.
Menntaverðlaun Suðurlands fyrir árið 2022 voru afhent 12. janúar sl. á sérstakri hátíðarathöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi en verðlaunin eru veitt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Níu tilnefningar bárust um Menntaverðlaun Suðurlands og var það samdóma álit sérstakrar nefndar í kringum verðlaunin að þau skyldu fara til Tónlistarskóla Árnesinga. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands afhenti verðlaunin.
Tónlistarskólinn sinnir tónlistarmenntun um 550 nemenda á 14 kennslustöðum í Árnessýslu en að skólanum standa öll átta sveitarfélög sýslunnar. Skólinn leggur þannig grunninn að, og stendur fyrir öflugu menningarstarfi á svæðinu og leggur janframt mikla áherslu á að tengjast samfélaginu. Má í því tilliti nefna að kennarar heimsækja alla grunnskóla í sýslunni fimm sinnum á hverju vori til að kynna nemendum hin margvíslegustu hljóðfæri. Auk þess koma nemendur mjög oft fram við skólasetningu og skólaslit leik-, grunn- og framhaldsskólanna í sýslunni. Skólinn stendur árlega fyrir mörgum glæsilegum viðburðum og á árinu 2022 má meðal annars telja til vel heppnaða Vínarbrauðstónleika strengjadeildar sem haldnir voru fyrir fullu húsi í félagsheimilinu Árnesi, tvenna framhaldsprófstónleika sem voru haldnir í Hveragerðiskirkju auk fjölmargra vortónleika og skólaslitatónleika á öllum kennslustöðum í maí auk yfir eitt hundrað viðburða á vegum skólans í formi haust- og jólatónleika. Að auki tóku nemendur þátt í Nótunni – uppskeruhátíð tónlistarskólanna í Salnum í Kópavogi. Eins heimsóttu nemendahópar og kennarar skólans ýmsar stofnanir í sýslunni fyrir jólin, m.a. dvalar- og hjúkrunarheimili og glöddu heimilismenn með ljúfum tónum.
Stærsti viðburður haustannar 2022 var án efa tónleikar, sem haldnir voru í íþróttahúsinu á Laugarvatni í nóvember sl. fyrir um 300 áheyrendur. Þar tóku um 130 nemendur og starfsmenn skólans þátt í að heiðra Gunnar Þórðarson með flutningi á fjölmörgum perlum hans. Fluttar voru nýjar útsetningar laganna sem unnar voru af kennurum skólans.
Nemendur og kennarar skólans eru víða sýnilegir og má meðal annars nefna að um helmingur hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands eru kennarar og nemendur Tónlistarskóla Árnesinga.
Alls bárust níu tilnefningar til Menntaverðlauna Suðurlands fyrir árið 2022 og eru þær eftirfarandi:
- Elsa Jóna Stefánsdóttir deildarstjóri Bjargs, sérdeildar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn fyrir framúrskarandi starf í þágu barna með sértæka náms- og hegðunarerfiðleika.
- Þorbjörg Lilja Jónsdóttir kennara við Grunnskóla Hveragerðis fyrir lokaverkefni sitt til M.Ed-prófs í Sérkennslu fræði og skóla margbreytileikans. Lokaverkefni Þorbjargar Lilju hefur vakið athygli fyrir efnistök, umfjöllun og niðurstöður.
- Heilrækt þróunarverkefni sem hefur verið unnið í tengslum við skólaíþróttir í Grunnskólanum í Hveragerði undanfarin ár og byggir á faglegri þróun íþróttakennslu á elsta stigi þar sem aðal markmið er að nemendur útskrifist úr grunnskóla sjálfbærir gagnvart eigin heilsu.
- Fjallmennskunámið í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu fyrir spennandi námsleið með skemmtilegri nálgun á námsefnið.
- Víkurskóli fyrir Víkurfjöruverkefnið, samstarfsverkefni Víkurskóla, Kötlu jarðvangs og Kötluseturs, verkefnið er strandlínurannsókn í Víkurfjöru og er til þess fallið að efla þekkingu nemenda á nærumhverfi þeirra og vísindalegri rannsóknaraðferð.
- Myndlistarkennarar við Fjölbrautarskóla Suðurlands fyrir einstakan áhuga, metnað, listfengi og frumleika í starfi.
- Valberg Halldórsson fyrir góðan árangur í námi. Valberg útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands á árinu frá Deild 3, Handrit og Leikstjórn. Lokaverkefni Valbergs var myndin „Tapað/Fundið“.
- Flóaskóli fyrir skólastarf sem hefur skilað eftirtektarverðum árangri í menntun nemenda á grunnskólastigi.
- Tónlistarskóli Árnesinga fyrir starf sitt í menntun nemenda sinna, öflugt menningarstarf í allri Árnesssýslu sem og tengsl sín við samfélagið.