fbpx

Fyrsti áfangi skýrslunar „Landfræðilegt og efnahagslegt litróf landbúnaðar á Íslandi – Staðbundin efnahagslegt mikilvægi landbúnaðar á Íslandi“ er nú aðgengileg.

Markmið og viðfangsefni skýrslunnar er að veita yfirlit yfir umfang landbúnaðar í einstaka landshlutum á Íslandi. Tilefni viðfangsefnisins má rekja til nokkurra atriða og tengjast breyttu ytra umhverfi atvinnugreinarinnar. Þau helstu eru:

  • Stóraukinn innflutningskvóti á erlendum landbúnaðarafurðum – einkum fersku kjöti.
  • Aukin áhersla og meðvitund á tengsl landbúnaðar og loftslagsmála ásamt annarra áskoranna umhverfis- og auðlindamálum.
  • Versnandi afkoma innan landbúnaðarins og horfur – einkum í sauðfjárrækt og minkarækt.
  • Endurskoðun á samningum um starfskilyrði ýmissa búgreina.

Af þessum sökum jókst áhugi atvinnuþróunarfélaganna og landshlutasamtakanna um land allt á að fá tölur yfir staðbundið vægi atvinnugreinarinnar ef svo færi að hann yrði fyrir verulegu áfalli.

Ekki var talin ástæða til að taka úrvinnslugreinar landbúnaðarins með í þessa greiningu þar sem kjötvinnslurnar geta flutt inn erlent kjöt til úrvinnslu ef innlend framleiðsla dregst mikið saman eða stöðvast. Þó hefði verið full ástæða til að taka sláturhúsin með þar sem þau byggja af augljósum ástæðum algerlega á innlendum sláturdýrum, en það var ekki gert í þessum áfanga. Það verður sennilega reynt síðar og jafnvel afleidd störf landbúnaðar að auki.

Þessi skýrsla var unnin að frumkvæði Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem efndi til samstarfs allra atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka: Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Eyþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Vestfjarðarstofa/Fjórðungssamband Vestfirðinga, Austurbrú/Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum/Heklan-Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Á vef Háskólans á Akureyri kynnir Vífill Karlsson skýrsluna og helstu niðurstöður. Hægt er að sjá það hér:
https://www.unak.is/is/samfelagid/upptokur-og-utsendingar