Á næstu dögum verður opnað að nýju fyrir umsóknir um styrki til menningar- og nýsköpunarverkefna úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Á fundi verkefnastjórnar Sóknaráætlunar og Uppbyggingarsjóðs Suðurlands 23. september sl. var eftirfarandi bókað er varðar næstu úthlutun;
„Samþykkt áætlun um að veita 34,5 milljónum króna úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands í síðari úthlutun ársins. Áætluð skipting er 21 mkr. til nýsköpunarverkefna og 13,5 mkr. til menningarverkefna. Hærri áætlun til nýsköpunarverkefna skýrist af óúthlutuðu fé til málaflokksins frá síðasta ári. Af fjármunum til menningarverkefna eru 1,5 milljónir til komnar vegna samnings við Rarik um stuðning þeirra við menningarstarf á Suðurlandi. Auglýst verður eftir umsóknum frá og með fyrstu vikunni í október og opið verður fyrir umsóknir í um 5 vikur að þessu sinni. Með lengri umsóknartíma er vonast til að ráðgjöfum gefist meiri tími til að aðstoða umsækjendur við mótun verkefna og gerð umsókna.“