fbpx

Í ár stendur sunnlenskum börnum og ungmennum í 5. – 10. bekk til boða að taka þátt í Upptaktinum. Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna gefur ungu fólki tækifæri til að senda inn eigin tónsmíð og móta hana svo úr verði fullskapað tónverk sem flutt er í Hörpu í samstarfi við nemendur Listaháskóla Íslands og atvinnutónlistarfólk. Tónleikar Upptaktsins fara fram á opnunardegi Barnamenningarhátíðar í Hörpu 24. apríl 2024. Upptakturinn er árviss viðburður á vegum Hörpu sem nú er haldinn í tólfta sinn. Alls hafa 135 tónverk verið flutt eftir um 200 þátttakendur. Árlega eru sendar inn um það bil 90 tónsmíðahugmyndir sem valnefnd velur úr.

Upptakturinn hlaut alþjóðlegu verðlaunin YAMawards fyrir besta tónlistar- og þátttökuverkefnið 2022. Ungmenni í 5.-10. bekk geta sent inn hugmyndir að tónsmíðum í því formi sem þau kjósa, á upptöku eða með hefðbundinni eða óhefðbundinni nótnaskrift. Áhersla er lögð á að styðja þau í fullvinnslu hugmyndar, en ungmennin sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda tónsmíðadeildar. Að þessu ferli loknu er nýtt tónverk flutt af nemendum LHÍ og atvinnutónlistarfólki, tekið upp og sýnt á RÚV.

Hugmyndir skulu berast ekki seinna en 21. febrúar á netfangið upptakturinn@gmail.com með nafni höfundar, aldri, símanúmeri, tölvupóstfangi, grunnskóla, titli verks og verkinu á nótum og/eða MP3 hljóðskrá.

Sjá nánari upplýsingar í meðfylgjandi bréfi og á heimasíðu Upptaktsins hér. 

Upptaktsbréf 2024