fbpx

Markmið

Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um stöðu og horfur úthafsfiskeldis, hvaða upplýsingar þurfa að liggja til grundvallar svo hægt sé að hefja starfsemi, hverjir þurfa að koma að slíkri vinnu og hversu mikið sú vinna gæti kostað. Verkefnið fellur fullkomlega að meginmarkmiði sem snýr að atvinnu- og nýsköpun sem er að til verði öflugt atvinnulíf á Suðurlandi með aukinni nýsköpun, framleiðni og fleiri fyrirtækjum.

Verkefnislýsing

Gert er ráð fyrir að ráðinn verður sérstakur verkefnisstjóri til að vinna að framgangi verkefnisins og skjóta frekari stoðum undir verkefnið.
Settur verður saman öflugur og virkur samráðshópur fagfólks til afla þekkingar og miðla eigin þekkingu. Starfshópurinn verður jafnframt bakland og stuðningur við verkefnisstjóra. Verkefnisstjóri og samráðshópur fá greidd laun fyrir sín störf. Þeir fjármunir sem nú eru komnir í verkefnið munu verða nýttir til að setja verkefnið upp og hefja fyrstu skrefin.

Helstu verkefnin eru:

  1.  Núverandi staða þekkingar
    • Úthafsfiskeldi í NO + Heimurinn allur
    • Náttúrufar við Eyjar
  2. Þarfagreining
    • Rannsóknir
    • Upplýsingar / gögn
    • Þekking
    • Fjármunir
  3. Uppsetning verkefnis
  4. Leit að samstarfsaðilum
  5. Áætlanagerð: tíma-, kostnaðar- og verkáætlun
  6. Fjármögnun
  7. Kynning á niðurstöðum

Tímaáætlun

  • 15. febrúar 2020. Fjármögnun liggur fyrir
  • 15. mars 2020 – 1. september 2020. Stofnun samráðshóps og vinna hans (út verktímann). Leit að verkefnisstjóra og ráðning hans. Undirbúningur frekari fjármögnunar og leit að samstarfsaðilum.
  • 1. september 2020. Verkefnisstjóri tekur til starfa
  • 1. febrúar 2021. Vinnu við verkefnið lýkur
    • Kynning á niðurstöðum
    • Starfsmaður og samráðshópur lýkur formlega störfum ef ekki verður framhald á verkefninu

Tengsl við Sóknaráætlun 2020-24

Verkefnið styður vel þær áherslur sem settar eru fram í Sóknaráætlun Suðurlands 2020 – 2024. Eftirfarandi áherslur hafa verið settar fram varðandi Atvinnu og nýsköpun:

  1. Við viljum fjölga störfum án staðsetningar á Suðurlandi. Fiskeldi er alþjóðlegur framleiðslu- og þekkingariðnaður. Störf án staðsetningar eru því fjölmörg þó svo framleiðsla og þjónustustarfsemi ýmiskonar fari fram á tilteknum stað. Sjálfsagt munu mörg af störfum sem tengd verða þessu verkefni verða unnin án sérstakrar staðsetningar. Tækninni fleygir fram og sem dæmi má nefna að í einu fyrirtæki á Íslandi er fóðrun fjarstýrt frá Noregi.
  2. Við viljum að aukinn hluti tekna atvinnulífs á Suðurlandi árið 2024 komi frá vörum og þjónustu sem ekki voru til árið 2019. Úthafseldi er ekki til staðar í dag á Suðurlandi og því er þetta ný atvinnugrein
  3. Við viljum bæta samkeppnishæfni fyrirtækja á Suðurlandi. Úthafseldi getur tryggt Suðurland enn frekar í sessi sem eitt helsta matvælasvæði landsins, matarkista, um leið og fjölbreytti matvælaframleiðslunnar eykst.
  4. Við viljum auka nýsköpun og veltu í matvælaframleiðslu á Suðurlandi. Úthafseldi tryggir bæði nýsköpun og eykur veltu til muna. Miðað við þær hugmyndir á eldiseiningum sem verið er að vinna með þá hleypur verðmæti í upphafi á milljörðum.
  5. Við viljum stuðla að auknum fjölbreytileika í atvinnulífi á Suðurlandi. Um nýja atvinnustarfsemi er að ræða þ.a.l. eykst fjölbreytnin. Markmiðið er að verkefnið hafi jákvæða ímynd fyrir Suðurland, byggt á gæðum og hreinleika. Málefnið er viðkvæmt og miklar kröfur gerðar til eldisstarfsemi. Það er því ekkert annað í boði en að vanda vel til verka.
  6. Við viljum efla rannsóknir og þróun atvinnulífs á Suðurlandi. Verkefnið tengist rannsóknum, þróunarstarfi sterkum böndum. Náttúrurannsóknir eru mikilvægustu rannsóknirnar í upphafi og jarðvísindin þar á meðal. Verkefnið getur aukið samvinnu og samtarf á sviði rannsókna, þekkingar og á haftengdri starfsemi. Verkefni eins og þetta mun laða að sér ný fyrirtæki bæði innlend og erlend. Svona verkefni verður ekki framkvæmt nema með erlendri þekkingu. Verkefnið miðar að því að kortleggja náttúruna og byggja síðan atvinnuveg á sérstöðu svæðisins. Ef verkefnið kemst á flug þá þarf að fara út í miklar rannsóknir. Rannsóknir og þróun geta stutt vel við menntun og hækkað þannig menntunarstig og aðgengi að þekkingu. Tengin við alþjóðalega háskóla og menntastofnanir ætti að ýta undir frekari menntun.

Tengsl við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Verkefnið tengist a.m.k. 4 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, með sterkum hætti:
Markmið 8. Góð atvinna og hagvöxtur. Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Veiðar og vinnsla á villtum fiski hefur breyst mjög á síðustu árum, tæknistig hefur aukist mjög sem kallað hefur á færri vinnandi hendur. Miklar sveiflur hafa verið í fiskistofnum s.s. loðnubrestur árið 2019. Eldi á fiski er mjög stöðugt. Framleitt er alla daga ársins árið um kring. Aukin eftirspurn er eftir eldisfiski í heiminum og því getur fiskeldið skapað sjálfbæran hagvöxt og veitt fjölmörgu fólki mannsæmandi atvinnutækifæri. Fiskeldisiðnaður er hátækniiðnaður sem skapar fjölda eftirsóknarverðra starfa sem geta skapað mikinn hagvöxt.
Markmið 9. Nýsköpun og uppbygging. Byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun. Verkefnið er hreint og klárt nýsköpunarverkefni og til þess að svona verkefnið nái flugi þá þarf sterka innviði bæði í mannauði, þekkingu, námi, stoðkerfi og aðstöðu, svo dæmi sé tekið. Fiskeldisiðnaðurinn hefur kallað eftir öflugum innviðum. Fiskeldisiðnaðurinn er hátækniiðnaður sem er á fleygi ferð fjórðu iðnbyltingunni og mikil áhersla er lögð á nýsköpun í allri virðiskeðjunni. Markmið verkefnisins er að byggja undir nýsköpun, ekki bara á Suðurlandi heldur á landsvísu. Úthafseldi er ekki stundað á Íslandi og aðstæður til strandeldis eru ekki til staðar á Suðurlandi. Þarna geta Sunnlendingar skapað sér sérstöðu til viðbótar við það landeldi sem fyrir er. Sú þekking sem skapast í verkefninu eflir það þróunarstarf sem hefur átt sér stað á undangengnum árum tengt hafinu. Þekkingarsetrið hefur skapað öfluga umgjörð fyrir menntun, rannsóknir og þróun. Verkefni sem þetta styrkir enn frekar stoðir undir þennan iðnað. Ef endanlegt markmið næst, þ.e. að það verði hægt að koma á úthafseldi þá er verið að taka stór skref í atvinnusköpun sem byggir á sjálfbærri nýtingu á auðlindum Suðurlands. Sterkara atvinnulíf og meiri fjölbreytni í atvinnutækifærum skapar sterkara samfélag, sterkari byggðir og traustari innviði.
Markmið 12. Ábyrg neysla og framleiðsla. Tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur. Hafið er náttúruauðlind sem Eyjamenn hafa reytt sig á frá upphafi byggðar. Til að viðhalda náttúruauðlindinni þarf að halda henni við með markvissum aðgerðum. Sjávarútvegurinn hefur verið meðvitaður um þetta og hefur verið í fararbroddi á fjölmörgum sviðum til að tryggja sjálfbærni fiskstofna og umhverfisins. Hluti af því að gera Vestmannaeyjar sjálfbærar til frambúðar er að auka framleiðslumöguleika til að styrkja atvinnu og samfélag í Eyjum – byggt á styrkleika svæðisins. Aukin hagræðing í sjávarútvegi og hækkun á tæknistigi hefur orsakað færri vinnandi hendur. Atvinnulíf í Eyjum er nokkuð einhæft. Í langan tíma hefur hlutfall sjávarútvegs af heildaratvinnutekjum í Vestmannaeyjum verið það hæsta á landinu. Þetta verkefni getur því minnkað innri atvinnuáhættu og tryggt framleiðslumynstur og menningu sem Eyjamenn þekkja og stutt vel við þá innviði og fjárfestingu sem nú þegar er til staðar í sjávarútvegi. Verkefnið ýtir undir vöruþróun, markaðssókn og öflun þekkingar. Það er verið að tala um nýja tegundir, nýjar framleiðsluafurðir sem fara inn á markaði sem ekki er verið að selja á í dag og til þess þarf nýja þekkingu. Starfsemi eins og þessi auk þeirrar þekkingar sem hún skapar verður öðrum hvatning til aukinnar nýsköpunar. Sjávarútvegur og haftengd starfsemi er ein af grunngerðum atvinnulífs og samfélags á Suðurlandi. Verkefnið getur skapað góðan jarðveg fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Suðurlandi til að efla sýna starfsemi með þátttöku í þróun og þjónustu við eldið. Frumframleiðslan verður á Suðurlandi og hún getur skapað mikil tækifæri til fullvinnslu
Markmið 14. Líf í vatni. Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt. Fiskeldisiðnaðurinn þarf að fylgjast vel með umhverfinu og umhverfisaðstæðum svo hann geti starfað á sjálfbæran hátt. Mikil umræða hefur verið um fiskeldi á síðustu árum varðandi umhverfismál. Eitt afsprengi þeirrar umræðu er að færa eldið á haf út gera hlutina betur til að lágmarka skaðleg áhrif. Aðrar atvinnugreinar s.s. sjávarútvegur getur nýtt sér góð gögn varðandi vöktun á umhverfisþáttum í hafinu. Niðurstöður verkefnisins munu án efa vekja athygli á umhverfisþáttum í hafinu í kringum Suðurland með sjálfbærni í orku og auðlindum að leiðarljósi. Niðurstöður verkefnisins geta komið fjölmörgum aðilum til góða s.s. þeim sem vilja hagnýta orku frá sjávaröldum og beisla vindorku til raforkuframleiðslu. Megin markmiðið með úthafseldinu er að skapa meiri sátt meðal fólks um nýtingu og meðferð náttúrunnar. Vestmannaeyjar eiga sé langa sögu í sjávarútvegi, þar er mikil og sterk menning fyrir vinnu, atvinnusköpunar og þjónustu við sjávarútveginn. Hafið úti fyrir Suðurlandi er ein stærsta auðlind svæðisins.

Árangursmælikvarðar

Hvað verkefnið sjálft varðar þá má segja að mælanleg markmið séu nokkur: 1) Skila verkefninu á réttum tíma. 2) Halda verkefninu innan fjárhagsramma og vinna eftir þeirri verk-tíma- og kostnaðaráætlun sem sett var í upphafi. Þó þannig að hægt sé að gera breytingar sem skila betri útkomu en lagt var af stað með í upphafi 3) Efla staðbundna þekkingu og ná að miðla henni áfram. 4) Finna verkefninu framhaldslíf ef jákvæð niðurstaða gefur tilefni til þess.
Ef það rætist úr verkefninu, endanlegt markmið næst og starfsemi kemst af stað mun það kalla á mikla fjárfestingu og uppbyggingu ýmissa innviða. Fyrirtækjum mun fjölga (Markmið #1 í Atvinnu- og nýsköpun (A&N)). Fiskeldisiðnaðurinn er hátækniiðnaður og afleiður fiskeldisiðnaðarins er annar hátækniiðnaður ýmiskonar (Markmið #2 A&N). Það munu margar atvinnugreinar, njóta ávinnings af verkefninu, s.s. ýmsar þjónustugreinar við sjávarútveginn, og ýmis þekkingariðnaður – margfeldisáhrifin eru mikil. Framleiðni fyrirtækja eykst þar sem fiskeldisiðnaðurinn skapar mikil verðmæti og skapar fjölmörg störf. Óhætt er að fullyrða að verðmæti pr. starf er gríðarlega hátt (Markmið #4 A&N). Fiskeldisiðnaðurinn og tengdur iðnaður hefur sogað að sér mikið fjármagn til nýsköpunar (Markmið #5 A&N). og getur styrkt ýmsa innviði s.s. í rannsóknarsamfélaginu, sem tengdur er greininni. Þekkingarsetrið og SASS geta komið og aðstoðað með öflugum hætti þarna enda mikil reynsla að baki í stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og rekstur.

Lokaafurð

Verkefninu lýkur 1. febrúar 2021. En þá er gert ráð fyrir að unnið hafi verið úr fjárframlagi úr Sóknaráætlun Suðurlands. Upplýsingar sem munu safnast á verktímanum verða rammaðar inn í skýrslu og skilað til verkefnisstjórnar sem er þá önnur afurðin. Stefnt er á að halda kynningarfund og/eða ráðstefnu, sem er þá seinni afurðin, til að gera grein fyrir niðurstöðum verkefnisins og vonandi framhaldi verkefnisins. Stefnt er á að gera sem mest af niðurstöðum verkefnisins opinber. Mögulega þarf þó að halda einhverjum atriðum leyndum vegna viðskiptalegra hagsmuna.


Verkefnastjóri
Hrafn Sævaldsson
Framkvæmdaraðili
Þekkingarsetur Vestmannaeyja
Heildarkostnaður
6.000.000.-
Þar af framlag úr Sóknaráætlun
6.000.000.-
Ár
2020
Upphaf og lok verkefnis
1. maí 2020 hefst verkefnið. 1. febrúar 2021 lýkur verkefninu
Staða
Í vinnslu
Númer
203004


Staða verkefnis 

Verkefnið gengur út á að afla upplýsinga um stöðu og horfur úthafsfiskeldis, hvaða upplýsingar þurfi að liggja til grundvallar svo hægt sé að hefja starfsemi, hverjir þyrftu að taka þátt í slíkri vinnu og hversu mikið sú vinna gæti kostað.

Gert er ráð fyrir að ráðinn verði sérstakur verkefnisstjóri til að vinna að framgangi verkefnisins og skjóta frekari stoðum undir verkefnið.

Búið er að setja saman starfshóp um verkefnið. Í starfshópnum sitja Hrafn Sævaldson, Róbert Guðfinnsson og Tómas Már Sigurðsson. Nú er unnið að mati á lífsskilyrðum fisks í úthafseldi við Vestmannaeyjar og upplýsingaöflun.