fbpx

Þrjú verkefni voru tilnefnd til Menntaverðlauna fyrir árið 2009. Skólaskrifstofa Suðurlands fyrir „Bright Start“ vitræna námskrá fyrir ung börn,  auk þess að vera í fararbroddi hvað varðar endurmenntun kennara og skólastjórnenda á Suðurlandi.
Laugalandsskóli í Holtum fyrir að vera í fararbroddi hvað varðar nýsköpun og þróun skólastarfs á Suðurlandi. Flúðaskóli í Hrunamannahreppi fyrir verkefnið „Lesið í skóginn“ og hlaut Flúðaskóli
verðlaunin.  Hugmyndafræði verkefnisins snýst um að nýta náttúruna og skóginn til að nálgast sem flest viðfangsefni í kennslu allra árganga með það að leiðarljósi að gera kennsluna líflegri og áhugaverðari fyrir nemendur auk þess að vekja áhuga þeirra á íslenskum skógum og náttúru.

Tvö verkefni hlutu styrk úr Vísinda-og rannsóknarsjóði Fræðslunets Suðurlands. Meistaraprófsverkefni Guðrúnar Þórönnu Jónsdóttur, sem fjallar um tengsl og samstarf leik-og grunnskóla í Árnessýslu með tilliti til lestrarnáms ungra barna.  Og B.S. verkefni  Sigurðar Torfa Sigurðssonar „Hófar og hæfileikar“. Verkefnið felst í því að bera saman hófa og járningar hrossa sem mæta til kynbótadóms, og hófa og járningar almennra reið-eða keppnishesta. Tilgangurinn er m.a. að skoða hvort form, lengd og halli hófa og kjúku hafi áhrif á ganghæfileika íslenska hestsins.