Verkefnastjórn Sóknaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar, um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Um var að ræða seinni úthlutun sjóðsins á árinu 2019. Umsóknir voru mjög margar að þessu sinni eða 155 talsins. Í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna bárust 65 umsóknir og 90 umsóknir í flokki menningarverkefna.
Að þessu sinni var um það bil 36,5 mkr. úthlutað til 79 verkefna úr báðum flokkum. Samþykkt var að veita 23 verkefnum styrk í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna um samtals tæplega 16 mkr. og 56 verkefnum í flokki menningarverkefna sem hlutu samanlagt tæplega 21 mkr.
Hæsta styrkinn hlaut að þessu sinni fyrirtækið Sláturfélagið Búi svf. kr. 2,5 mkr. í vekefnið Afurðir úr héraði á borð ferðamanna. Markmið verkefnisins er að reka þjónustusláturhús í Hornafirði sem mun þjóna bændum og smáframleiðendum sem framleiða afurðir úr héraði til sölu á svæðinu.
Í flokki menningarverkefna hlaut Vala Hauksdóttir hæsta styrkinn kr. 700 þús. í verkefnið Skipsstrandarsafnið Hafnleysa. Markmið þess verkefnis er að blása lífi í sögu sjósóknar á hinum hafnlausu ströndum Suðurlands. Aðal gripur sýningarinnar er eikarskipið Skaftfellingur sem á sér yfir 100 ára sögu en einnig geta gestir fræðst um hin 112 skipsströnd sem skráð voru við strendur Skaftafellssýslna árin 1898-1982.
Lista yfir verkefni sem hlutu styrki má sjá hér.