fbpx

Frá Beint frá býli deginum í Gunnbjarnarholti í fyrra. Ljósmynd/AðsendFrá Beint frá býli deginum í Gunnbjarnarholti í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Fimmtudaginn 27. mars halda Samtök smáframleiðanda matvæla og Beint frá býli matarmarkað á Hótel Selfossi þar sem félagsmenn kynna vörur sínar fyrir gestum og gangandi.

„Markaðurinn er haldinn í tengslum við aðalfund og árshátíð félaganna sem í ár var ákveðið að halda á Selfossi. Við notum tækifærið þegar við komum saman og höldum matarmarkað, skipuleggjum fræðslu fyrir félagsmenn og förum í rútuferð um svæðið til að heimsækja félagsmenn og kynna okkur starfsemi þeirra,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðanda og aðildarfélags þess, Beint frá býli, í samtali við sunnlenska.is.

Í fyrra hafi þau verið á Vesturlandi og árið 2022 á Norðvesturlandi, svo í ár varð Suðurlandið fyrir valinu.

„Selfoss varð fyrir valinu því það er þéttbýlt svæði og því hentugt fyrir matarmarkað, auk þess sem fjölmargir félagsmenn okkar eru búsettir í nágrenninu. Hótel Selfoss hentaði vel fyrir þá ólíku viðburði sem við erum með, gaf okkur gott verð og topp þjónustu.“

Milliliðalaus viðskipti
Matarmarkaðir skipta miklu máli fyrir smáframleiðendur. „Á mörkuðum fá matarfrumkvöðlar tækifæri til að kynna vörur sínar fyrir neytendum, byggja upp persónuleg viðskiptasambönd, eiga innihaldsríkar samræður við viðskiptavini og selja milliliðalaust sem er mikil búbót í samanburði við sölu í gegnum þriðja aðila.“

„Gestir matarmarkaða eru gjarnan ákveðnir í að kynna sér og kaupa einstakar vörur sem oft eru ekki í boði í almennum matvöruverslunum. Þátttaka á mörkuðum er því bæði mikilvæg búbót fyrir smáframleiðendur og skemmtilegt tækifæri til að fá endurgjöf á matarhandverkið sitt.“

Fjölbreytt úrval kræsinga
Á markaðinum verða vörur frá hátt í 30 félagsmönnum í Samtökum smáframleiðenda og Beint frá býli alls staðar að af landinu.

„Neytendur munu því geta valið úr fjölbreyttu úrvali kræsinga því hver framleiðandi kemur oftast með margar tegundir. Markaðurinn er fyrir alla sem kunna að meta einstakar gæðavörur sem gleðja bragðlaukana og vilja styðja smáframleiðendur sem leggja líf og sál í sína framleiðslu,“ segir Oddný Anna að lokum.

Markaðurinn er frá 16:00-18:30 og er opinn öllum. Frekari upplýsingar má finna í Facebook viðburði sem hefur verið stofnaður fyrir markaðinn.

Fréttin birtist fyrst á Sunnlenska, sjá hér.