Vestamannaeyjabær hefur hafið vinnu við að merkja og hreinsa upp númerslausar bifreiðar af lóðum og götum sveitarfélagsins. Í hreinsunarvinnunni felst að skrifleg áminning verður límd á númerslausar bifreiðar, þar sem viðkomandi eigendum er gefinn viku frestur til að fjarlægja þær. Að þeim tíma liðnum mun Vaka ehf, fjarlægja viðkomandi bifreiðar á kostnað eigenda sinna og draga þær í Vökuportið í Reykjavík. Vaka sendir bifreiðaeigendunum bréf þar sem þeir verða áminntir um gjaldfallinn kostnað og hvattir til að ganga frá sínum málum.
Sé bifreið leyst út af eiganda greiðir sá hinn sami fyrir kostnað sem á bifreiðina hefur fallið. Kostnaður við að fjarlægja eina bifreið felst í flutningi hennar til Reykjavíkur ásamt geymslugjaldi pr. dag í Vökuportinu og innskriftargjaldi. Vestmannaeyjarbær hvetur alla til að sameinast í átakinu. Tökum höndum saman og göngum vel um. „Umgengni lýsir innri manni“. Þetta kemur m.a. fram á heimasíðu sveitarfélagsins, www.vestmannaeyjar.is