Vitaleiðin er ný ferðaleið niður við suðurströndina. Hún nær frá Selvogi í Ölfusi að Knarrarósvita í Árborg og er leiðin tæplega 50 km löng, eftir því hvort ekið er eftir vegi eða strandlínan sé nýtt.
Vitaleiðin hjálpar til að laða gesti að svæðinu og leiða þá í gegnum þorpin þrjú við sjávarsíðuna, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri, og upplifa fjölbreytta náttúru og dýralíf svæðisins, þá sögu og menningu sem svæðið býr yfir og fjölbreytta afþreyingu og þjónustu.
Vitaleiðin er tilvalin fyrir þá sem vilja ferðast hægar yfir, njóta og vinda ofan sér með aðstoð kyrrðarinnar í náttúrunni en um leið soga í sig orkuna frá Atlantshafinu.
Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Vitaleiðin býður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana, nýtt strandlengjuna eða þá göngustíga, sem búið er að leggja meðfram ströndinni, gengið, hlaupið, farið ríðandi á hestum eða jafnvel hjólað.
Íslendingar og aðrir ferðamenn eru hvattir til að upplifa Vitaleiðina og allt það sem hún hefur upp á að bjóða. Nánari upplýsingar um leiðina má finna á heimasíðu Vitaleiðarinnar.
Vitaleiðin er unnin í samvinnu Markaðsstofu Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Ölfuss ásamt rekstraraðilum á svæðinu.
Opnunarhátíð Vitaleiðarinnar verður laugardaginn 12. júní kl 13.00 við Stað á Eyrarbakka.
Slóð á viðburðinn á Facebook má finna hér.