fbpx

Ertu með brennandi áhuga á hringrásarahagkerfinu, sjálfbærni og nýsköpun? Viltu taka þátt í spennandi hugmyndavinnu og þróa lausnir fyrir samfélagið á Suðurlandi? 

Hugmyndadagar á Suðurlandi bjóða upp á einstakt tækifæri fyrir skapandi einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög sem hafa áhuga á sjálfbærni, hringrásarhagkerfinu og nýsköpun. Viðburðurinn, sem stendur yfir frá 1. til 7. apríl, er í boði byggðaþróunarfulltrúa SASS og Lóu nýsköpunarsjóðs. Þátttakendur fá innsýn í hönnunarhugsun, vinna saman í teymum og þróa lausnir fyrir raunverulegar áskoranir sem fyrirtæki og sveitarfélög á Suðurlandi standa frammi fyrir. Að lokum kynna teymin verkefni sín fyrir dómnefnd og verðlaunapotturinn hljóðar upp á 400.000 krónur.

Viðburðurinn er opinn öllum áhugasömum, óháð bakgrunni eða reynslu, og leggur áherslu á að stuðla að nýjum lausnum með skapandi og gagnvirkum hætti. Með þátttöku gefst einstakt tækifæri til að vinna með sérfræðingum, tengjast nýjum samstarfsaðilum og hafa áhrif á sjálfbæra þróun á Suðurlandi. Skráning er hafin og hvetjum við alla sem hafa áhuga á nýsköpun og sjálfbærum lausnum til að taka þátt. Frekari upplýsingar og skráning á viðburðinn er að finna á vef SASS.